Leikið á bökkum Jöklu

Eftir að hafa lesið minningarbrot og kveðjur í tilefni hálfrar aldar afmælis þá hafa rifjast upp fleiri gamlar minningar. Ein elsta minning sem ég man skýrt eftir er frá því ég var líklega um 5 ára gamall og bjó i Klausturseli á Jökuldal.

Klaustursel.
Google Maps

Bærinn er sunnan við Jöklu innarlega dalnum sirka klukkutíma akstur frá Egilsstöðum. Til að komast í Klaustursel er beygt til vinstri rétt áður en komið er að Hákonarstöðum og keyrt niður að Jöklu þar sem farið er yfir gamla brú, sem er elsta brú sinnar tegundar á Íslandi.

Gamla brúin yfir Jöklu við Klaustursel

Við brúna eru líka bílastæði fyrir fólk sem vill ganga og skoða Stuðlagil sem er náttúruundur á bökkum Jöklu.

Stuðlagil

Þegar gengið er í Stuðlagil Klaustursels meginn þá er líka gengið framhjá Stuðlafossi sem fallegt vatnsfall.

Ég á nú ekki margar minningar frá þessum tíma í Klausturseli, en ein hefur þó greipst í huga minn alla ævi. Þannig er að á Hákonarstöðum bjó (og býr reyndar enn ) drengur árinu eldri en ég, Sigvaldi Ragnarsson, en ég þekkti hann bara sem Vidda. Við vorum mjög góðir vinir á þessum tíma, svona í minningunni allavega. Í eitt skiptið sem hann kemur í heimsókn ákváðum við að fara í smá könnunarleiðangur. Líklega höfum við verið að elta Týrus, hundinn á bænum, því leið okkar barst að bökkum Jökulsár rétt neðan við fjárhúsin í Klausturseli. Þar höfðum við fundið okkur læk sem rennur út í Jöklu og vorum þar í einhverjum leik, líklega að fleyta spýtum og fylgjast með hvernig Jökla mynd taka við þeim út frá lækjar sprænunni.  Á þessum stað er talsverð brekka niður að ánni og vorum við algerlega í hvarfi frá bæði íbúðarhúsinu og fjárhúsunum. Það var enginn Kárahnjúkavirkjun á þessum tíma, þannig að Jökla var bara grá-mórauð og frekar hrikalegt vatnsfall.

Jökla á yfirfalli

Við félagarnir höfum sennilega gleymt tímanum þarna við að leika okkur. Allt í einu heyrum í ægileg öskur í Nonna frænda (Jón Hávarður) sem væntanlega hefur verið 16-17 ára gamall þarna. Hann var svona líka snarbrjálaður, sem var honum svo sannarlega ekki líkt. Við vorum semsagt búnir að vera týndir í einhvern tíma og pabbi hafði víst hundskammað Nonna fyrir að fylgjast ekki með okkur. Nonni dró okkur svo nánast heim að bænum þar sem beið okkar restin af leitarflokknum. Ég fór inn í forstofuherbergið þar sem voru vistaverur Týrusar og lagðist þar í bælið hans og grét. Týrus kom svo og lagðist hjá mér og huggaði og líklega hef ég sofnað þarna og verið svo borin inn í rúm seinna.

Ekki veit ég hvort nokkur man eftir þessu af þeim sem komu við sögu og líklega ruglar maður einhverju saman.  Þetta eru allavegar minningar frá mínum bestu vinum á þessum árum, þeim Vidda á Hákonartöðum og hundinum Týrusi.