(hálfrar) Aldar afmæli

Ég varð fimmtugur í vor.

Það er stór áfangi að verða 50 ára og óhjákvæmilega þá fer maður yfir farin veg.  Maður veltir fyrir sér markmiðum sem maður hefur sett sér og árangri þeim tengdum á hinum ýmsu sviðum. Það er hinsvegar samferðar fólkið á leið manns yfir þetta tímabil sem bæði mótar gildismatið og persónuna sem maður er. Akkurat þar hefur mitt ríkidæmi orðið til, í kringum fjölskyldu, vini og samstarfsfólk.

Mitt ferðalag hefur í meginatriðum ekki verið flókið, en kaflaskipt þó.

  • Fæddur á Egilsstöðum sem Jökuldælingur og stimpla mig ætíð sem slíkan.
  • Ólst upp á Eskifirði og gekk mín grunnskóla ár þar.
  • Sótti Héraðskólann á Eiðum og útskrifast frá ME.
  • Gítarlék í nokkrum óþekktum hljómsveitum.
  • Nam Fiskvinnslufræði í Hafnarfirði.
  • Bjó skamma stund á Hornafirði, en sá tími var samt sá sem hafði mest áhrif á lífshlaup mitt.
  • Nokkur ár á Eskifirði í verkstjórn
  • Nam Kerfisfræði í TVI/HR
  • Bjó Laugardalnum í Reykjavík og svo í Hafnarfirði
  • Giftist stelpunni úr næsta húsi á Eskifirði og á með henni 3 börn.
  • Forritari hjá HugAx í 15 ár
  • Flutti í Egilsstaði og bjó þar í 10 ár og vann áfram við forritun.
  • Stofnaði þar nokkur fyrirtæki, tók þátt í pólitík og samfélagi.
  • Flutti til Ameríku og ég settist að í Redmond WA ( Seattle) og bý þar enn.

Ég er því í Héraðsmaður alinn upp á Eskifirði en bý nú í Redmond (Seattle)  í Bandaríkjunum, starfaði sem verkstjóri í fiskvinnslu í nokkur ár, en hef þó aðallega starfað við forritun ERP kerfa og í dag starfa ég sem verkefnastjóri í innleiðingum ERP kerfa í Bandaríkjunum.

Það er því fjölbreytt flóra fólks sem hefur orðið á leið minni í gegnum tíðina og þvílík verðmæti í þeim kynnum, vinskap og fjölskyldu tengslum er magnað. Ómælanlegt á hefðbundinn kvarða veraldlegra auðlegðar og því ómetanlegt. 

Ég hélt nú ekki upp á 50 ára afmælið í kringum daginn sjálfan, er alltaf svolítið meyr í kringum þessi stærri tímamót og finnst ekki til þess fallandi að fagna séstaklega.

Það var hinsvegar haldið upp á sameiginlegt afmæli mitt og dætra minna á afmæli Töru Aspar 20 desember, sem var 30 ára þann dag, Embla varð svo 20 ára 14 Apríl og ég 50 ára þann 16 Apríl, samtals 100 ár takk.  Kristbjörg sló því upp veislu í litla húsinu sem við leigjum hér í Redmond og þar mætti vinir okkar héðan af svæðinu. Úr varð frábært partý sem af íslenskum sið stóð fram á morgun. Mikið sungið og dansað.

Þó ég hafi ekki verið neitt sérstaklega áhugasamur eða jákvæður um að halda teiti í litla húsinu okkar svona rétt fyrir jólin, þá er ég svo innilega þakklátur Kristbjörgu að láta verða af því.

Í þessu teiti þá afhjúpaði Tara mín gjöf til mín sem er bók sem ber titillinn ‘Tjörvi Hrafnkelsson 50 ára’.

Innihaldið voru 50 kveðjur og minningarbrot frá ættingjum, vinum og samferðarfólki sem Tara hafði upp á með aðstoð móður sinnar. Það var eins og sandstormur hefði dunið yfir galopin augun af undrun og þakklæti. Rykið ætlaði aldrei að ná að setjast.

Ég er svo þakklátur í hjartanu fyrir þá endurgjöf sem kom til mín gegnum það sem þarna er skrifað af samferðafólki mínu allt frá Eskifirði til Seattle og allt þar á milli. Gamlar myndir dregnar fram í dagsljósið sem fylla mann af ljúfum minningum.

Hljómsveitin ‘Enginn Okkar’
Beljur á beit fyrir utan rafstöðina á Skriðufelli.
Tjörvi og Matti að leika sér við eina tjörnina fyrir ofan Skriðufell.
Ég og Ísold Birta á á góðri stund að lesa saman.
Sour Balls eftir vel heppnað þorrablót í Seattle 2019.
London 2013
Systikinin Fjóla og Tjörvi
Einn í eigin heimi í með gítarinn í íslenskri náttúru.
Fjölskyldan
Feðgar
Frændur í Seattle.
Dæturnar á RUV.
Bridgekerfi Óla Geirs.
Eitt af mörgu Partýum
Ástin mín eina að eilífu.

Bókin er vissulega ekki tæmandi listi yfir alla sem á leið minni hafa orðið, en þversniðið vekur upp minningar um alla hina líka og gefur mér vísbendingu og vitnisburð um hvar raunverulegum auð hefur verið safnað.  Eitthvað sem maður kann ekki alltaf að meta frá degi til dags, en þarf að geta þakkað fyrir.  Ekki bara það jákvæða, því margt hefur orðið á leið manns misgott sem þarf að læra af og meta sem reynslu.

Ég er því mjög þakklátur þeim sem höfðu fyrir því að skrifa nokkur orð, rifja upp minningar og senda kveðjur.

Ég er svo óendanlega þakklátur dóttur minni Töru Ösp fyrir gera þessa bók og það sem hún  sjálf skrifaði til mín þar er mér kærara en allt og ég hef bara ekki orðaforða til að til að geta hjúpað það þakklæti í setningar með góðu móti.

Með sameiginlegu átaki getum við allt Tara!

Takk!