Vistin í útlöndum
Nú hefur fjölskyldan búið á Seattle svæðinu í USA í rúma 16 mánuði og það er óhætt að segja að það hafi gengið á ýmsu.
Þar til í mars á þessu ári bjuggum við í einbýlishúsi í Bothell WA í mjög aflokuðu hverfi. Ef ekki hefði verið fyrir nágrannan á móti, sem var eldri maður sestur í helgan stein sem eyddi deginum í að bóna bílana sína og slá blettinn sinn þá hefði leikið vafi á að væri búið í húsunum í þessari götu. Reyndar er þessi maður það eina eftirminnalega úr þessu hverfi alla þessa 12 mánuði. Frekar óviðkunnalegur náungi og eiginlega bara soldið ‘Creapy’. Isar kallaði hann Red John eftir persónu úr sjónvarpsþáttunum Mentalist, hver sem það nú var. Allavega virkaði á okkur eins og hann hefði vafasama fortíð, njósnari hjá CIA, eiturlyfjabarón í vitnavernd, nú eða bara gamall rótari hjá Jimmy Hendrix.
Það var því ekki svo gott að við hittum á réttu staðsetninguna í fyrstu tilraun. Embla þurfti að skipta um skóla og skólahverfi síðasta haust og samhliða því þá var ákveðið að flytja. Það gekk ekki upp fyrr en í mars en þá fengum gott hús í Redmond, sirka helmingi minna en það sem við höfðum, en mun betur staðsett, á bæjarmörkum Bellevue, Redmond og Kirkland og nær Seattle.
Það er almenningsgarður beint á móti okkur, með upplýstum fótboltavöllum, baseball, körfubolta og tennis svo eitthvað sé nefnt. Tenging við hjólastígakerfi Redmond er við dyrnar hjá okkur, þar sem hægt er að hjóla hundruði kílómetra á stígum og svo er Belleveu golfvöllurinn í næstu götu. Stutt er í skólana og þá þjónustu sem við notum mest, læknar, sjúkraþjálfarar, tannlæknir o.s.frv.
Ég leigði mér svo vinnu skrifborð í frumkvöðlasetri í Redmond og get hjólað þangað.
Það vera með góða staðsetningu þýðir reyndar meiri umferð í kringum okkur og kvöldin og helgar stundum skrautleg. Höfum t.d. orðið vitni af lögregluaðgerðum fyrir framan húsið hjá okkur um miðja nótt.
Neysla og sala á Marijuana er lögleg ( með takmörkunum þó ) í Washington fylki og því er maður orðinn vanur weed lyktinnni, en maður fer varla í göngutúr án þess að verða hennar var.
Það er mjög blönduð menning hérna og hefur nálægðin við Microsoft og önnur tæknifyritæki eitthvað með það að gera. Hér er mjög mikið af fólki frá Asíu og eru Indverjar mjög áberandi en einnig fólk frá Kóreu, Japan eða Kína. Fólk af suður-amerískum uppruna áberandi líka, þó minna sé um þá hér miðað við sunnar í USA.
Ég myndi segja að í Redmond væri mjög umburðarlynt fólk, þar sem mætast öll möguleg þjóðerni, kynþættir og trúarbrögð. Mjög gaman að fylgjast með umferðinni í almennings garðinum handan götunnar, þar sem fjölskyldur hittast og þá sér maður þessum menningar afbrigðum bregða fyrir. Garðurinn er yfirleitt stútfullur af fólki hvert einasta kvöld og sérstaklega um helgar.
Mín upplifun af þessu nýja umhverfi okkar er því frekar jákvæð og almennt séð erum við semsagt nokkuð sátt við veru okkar hér í USA.