Byrðin afhjúpuð
Síðustu árin hef ég ekki verið duglegur að tjá mig í rituðu máli, reyndar bara að átt erfitt með tjáningu yfir höfuð. Átti það til að blogga reglulega og hafði skoðanir á flestu og fannst gaman að rökræða. Við pabbi höfðum t.d. mismunandi sýn á suma hluti og gátum átt í löngum samtölum og bréfaskriftum, sérstaklega um pólitík. Ég bloggaði mest fyrir sirka 10-11 árum, eins þegar ég var í pólitíkinni með Héraðslistanum 2010. Síðan þá hef ég í raun ekkert skrifað um skoðanir mínar, rétt komið frá mér almennum fréttum.
Nú hef ég fundið hvöt til þess að byrja að skrifa eitthvað aftur, en til þess að geta það þá verð ég eiginlega að koma frá mér smá byrði sem hefur litað mig síðustu misserin.
- Byrði sem náði hámarki á síðasta ári og var farið að hafa veruleg áhrif á mitt daglega líf.
- Byrði sem hefur fylgt mér leynt og ljóst í nokkur ár og hefur nærst á persónulegum áföllum í fjölskyldu og nærumhverfi
- Byrði sem ég reyndi að fela og ljúga mig frá í lengstu lög og ekki viljað viðurkenna.
- Byrði sem sneyddi mig öllu sjálfstrausti og frumkvæði.
- Byrði sem ég skammaðist mín fyrir og geri jafnvel enn, þótt í ég dáist af öðrum sem hafa viðurkennt hana og eru að takast á við hana.
- Byrði sem lengi hafði ekki heiti á og reyndi að vinna svör við sjálfur í gegnum t.d. andleg málefni
- Byrði sem ég hélt ég myndi geta leyst úr sjálfur með tímanum.
Það urðu hinsvegar straumhvörf síðasta ári þegar dóttir mín hún Tara Ösp sem borið hafði byrðar af svipuðum toga mjög lengi, bara margfalt erfiðari, fór að tala um þessa hluti við mig. Hún var á góðum stað í sínu bataferli og sá einkenni hjá mér og benti mér á nokkur ráð sem ég reyndi að tileinka mér. Það sem hinsvegar gerði útslagið voru facebook samskipti milli okkar 27 September í fyrra. Þá sendi hún mér facebook skilaboð eftir andvöku nótt hjá sér og í viðhengi var bréf þar sem hún hafði skrifað niður upplifun sína og átök síðustu árin við að kljást við sína byrði. Ég las bréfið og ég grét látlaust í langan tíma. Þetta voru tár sem áttu sér margar stoðir út úr þessum lestri.
- Ég grét því sem foreldri fannst mér ég hafa brugðist að hafa ekki geta skilið hana miklu fyrr.
- Ég grét því sem foreldri gat kom ekki í veg fyrir hluti sem hún varð fyrir í æsku og voru líklega rót þess sem hún var að kljást við.
- Ég grét því sem foreldri hafði ég gefist upp fyrir austfirska heilbrigðiskerfinu og gerði ekki nóg til að finna aðrar leiðir.
- Ég grét líka af þakklæti yfir því að dóttir mín skyldi vera á lífi. Því að útfrá því sem við höfðum gengið í gegnum með henni og lýsingum hennar þá var það engan vegin sjálfsagt.
- Ég grét ekki síst vegna þess að hún var að lýsa að stórum hluta minni eigin líðan. Dóttir mín hafði opnað augu mín fyrir því ég var veikur og talsvert mikið veikur.
- Ég grét því að dóttir mín hafði treyst mér fyrir sínum tilfinningum og upplifunum til þess að hjálpa pabba sínum.
Byrðin sem hún lýsti var þunglyndi, ég semsagt viðurkenndi þarna fyrir sjálfum mér í tárataumunum að ég gæti mögulega þjáðst af þunglyndi. Ég pantaði mér tíma hjá heimilslækninum mínum samdægurs og fékk tíma næsta dag. Í náði að stynja því út úr mér að mér hefði verið bent á að ég væri mögulega að kljást við Depression. Án þess að blikna sótti hún ítarlegt próf sem hún lét mig taka. Þar krossaði ég samviskusamlega við það sem ég taldi eiga við mig. Niðurstaðan staðfesti þann grun að ég væri haldin alvarlegu þunglyndi. Meðferðin hefðbundinn, geðlæknir, sálfræðingur og lyfjagjöf.
Ég byrjaði að nota þunglyndislyf 3 dögum eftir bréfið frá Töru og þau fóru að virka mjög fljótlega. Það var ekki síst þá sem ég gerði mér grein fyrir á hversu vondum stað ég var, því hinn stingandi kvíðasársauki og þyngsli fyrir brjósti var horfinn og allt einu var kominn meiri orka til að takast betur á við dagsins önn, meiri drifkraftur.
Hinsvegar var bara hálfur sigur unninn með þessu, því ég hélt daglegri rútínu en ég náði ekki að byggja mig upp. Til þess þurfti ég að ná meira andrými og því þurfti ég að viðurkenna þetta fyrir vinnuveitendum mínum og sameigendum. Það var virkilega erfitt skref, en þeir sýndu mér mikinn skilning sem var ekki endilega sjálfsagt. Það létti vissulega pressu við þetta þó ég ynni oftast fullan vinnudag, því verkefnin urðu viðráðanlegri. Smá saman hefur svo sjálfstraustið aukist og meira segja farið að örla á frumkvæði.
Eftirmálarnir af þessum samskiptum okkar Töru minnar má svo sjá víða í dag, því bréfið sem hún sendi mér þennan dag fyrir átta mánuðum varð að grein sem birtist á vefmiðlinum pressunni 30 September, Enginn á að ganga í gegnum þessa byrði einn. Grein skrifuð af tilfiningu á mannamáli sem auðvelt er að skilja. Viðbrögðin sem hún fékk voru ótrúleg, því það rétt eins og hjá mér þá tengdu svo ótrúlega margir sína líðan við hennar lýsingu. Í kjölfarið hefur hún svo hrundið af stað hlutum eins og #egerekkitabu, gedsjuk.is, faces of depression, farið í óteljandi viðtöl, valin austfirðingur ársins, valin Framúrskarandi Íslendingur ársins 2016 og hefur talað á TED ráðstefnu. Núna vinnur hún svo að heimildarmynd um þunglyndi.
Í flestum viðtölum og efni sem Tara hefur notað vísar hún í þessi samskipti okkar, en þó þannig að ekki væri hægt að lesa út um hvern væri að ræða. Það er ekki fyrr en núna eftir 8 mánuði að ég er tilbúin að viðurkenna þetta fyrir öllum og þannig taka undir að #egerekkitabu. Nú hef ég náð að skrifa þetta niður og ákveðið að birta hér á síðunni minni. Þar með hef ég afhjúpað byrðina og viðurkenni að ég þjáist að þunglyndi og er að díla við það!
#egerekkitabu.
Þessi pistill var birtur á vef Austurfréttar 10 júní 2016 Byrðin afhjúpuð (austurfrett.is)