Enn um þjóðveg 1 og Öxi
Kallað hefur verið eftir beittum viðbrögðum sveitarstjórnarmanna á Fljótsdalshéraði eftir“tilfinninga- og lágkúrulausar rökræður bæjarstjórnar Fjarðabyggðar á stöðfirskum íbúafundi”. Ég ætla mér hins vegar ekki að fara niður á þeirra plan, en vegna umræðunnar varðandi Öxi og þjóðveg 1 þá vil ég setja fram mínar skoðanir á þeim viðfangsefnum.
Eftir að hafa skoðað gögn um samgöngur sem snerta Fljótsdalshérað og rætt við fólk með mismunandi skoðanir, þá er þetta mín niðurstaða:
- Mikilvægasta samgöngubótin fyrir Austurland allt og þar með Fljótsdalshérað eru Norðfjarðgöngin frá Norðfirði yfir á Eskifjörð.
- Mikilvægasta samgöngubótin fyrir Fljótsdalshérað er uppbygging heilsársvegar yfir Öxi og skal sú vegaframkvæmd hafa forgang.
- Fyrir Fljótsdalshérað þá skiptir það engu máli hvort að þjóðvegur 1 liggur um Breiðdalsheiði, Öxi eða firðina. Færsla á vegnúmeri skyldi þó aldrei vera á þeim forsendum að auka þjónustustig í einum þéttbýliskjarna, en ef hægt er að sýna fram á öryggissjónarmið við þá færslu þá gæti ég stutt hana.
Tek fram að þetta er mín persónulega skoðun og endurspeglar á engan hátt skoðanir Héraðslistans eða Bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.