Sumarfrí 2010

Fótboltamót á Ólafsfirði með Hrafnkel.  Unnar, Daði og Davíð með í för. Hrafnkell prófaði allar stöður, spilaði vörn, fór í sókn og skoraði nokkur mörk, einn leik í marki þar sem hann stóð sig vel. Góð strákahelgi á Ólafsfirði, en Nikulásarmótið fær slaka einkunn þetta árið, margar ástæður fyrir því sem ég rek ekki hér.

IMG_2941

Á sama tíma og strákarnir voru á Ólafsfirði voru stelpurnar á Sumarhátíð UÍA. Þar varð Embla austurlandsmeistari í kúluvarpi, þriðja í spjótkasti og sjötta í langstökki. Frábært hjá henni.

Á þriðjudegi 13 júlí var haldið í ferðalag með fellihýsið. Stefnan tekin norður, hamborgarar á DJ grill á Akureyri og svo sund í Þelamörk.  Aftur borgarar í Staðarskála og þaðan keyrt á Hólmavík, þar sem við gistum fyrstu nóttina. Hólmavík er góður staður að heimsækja, þar var nýbúin að vera kærleiksvika og yfirbragð bæjarins bar þess merki með skemmtilegum tilvísunum um allan bæ. Heimsóttum galdrasetrið, en galdrar eru gjarnan kenndir við strandamenn.  Fallegur bær.

Frá Hólmavík fórum við yfir Steingrímsfjarðarheiði og stefnan tekin á Ísafjarða kaupstað. Fórum í sund á Reykjanesi við Ísafjörð þar sem er náttúruleg laug og í raun risasstór heitur pottur. Mjög skemmtilegt að koma þarna. Síðan keyrðum við firðina hvern af öðrum, Vatnsfjörð, yfir Mjóafjarðarbrúna nýju, Skötufjörð þar sem við við stoppuðum við Litla-kot og fengum okkur vöflur, kakó og kaffi. Afskaplega hlýlega tekið á móti okkur þarna í fallegu veðri og Eskja fékk að leika lausum hala. Því næst keyrðum við Hestfjörðinn sem er afskaplega fallegur og gróinn, en brattur í sjó fram. Mjög sérstakur. Því næst keyrðum framhjá Seyðisfirði  og svo Álftafjörðinn þar sem við fórum í gegnum Súðavík. Stoppuðum ekkert þar og hann var svo sem ekki að skora. Því næst var það bara Skutulsfjörðurinn og Ísafjarðarkaupstaður  loksins.  Við gistum í Tungudal í frábæru veðri. Fengum okkur Pizzu í Hamraborg og ís, tókum svo golf á 6 holu vellinum sem þeir eru með fyrir byrjendur. Skemmtum okkur konunglega.

Keyrðum yfir á Bolungarvík um Óshlíð og kíktum á Náttúrgripasafnið. Ætluðum að hitta á Bödda sem var því miður í fuglaeftirliti á Patriksfirði, á austurleið.  Komum til baka og tókum upp vagnin og tókum göngin til Flateyrar, slepptum alveg Suðureyri. Þvílíkt mannvirki þessi göng og svo eru önnur kominn til Bolungarvíkur.  Greinilegt að þingmenn Vestfjarða hafa staðið sig mun betur en okkar Austfirðinga í að fá samgöngubætur.  Þeir sem tala hæst um samgöngubætur á Vestfjörðum, hafa sennilega ekki keyrt fjallvegi á Austurlandi. Ætlaði ekki að blanda pólitík í þetta! En við allavega stoppuðum lítið á Flateyri, reyndar vakti tjörn með litlum heimagerðum bátum athygli okkar. Næst

IMG_2924

var það Gemlufallsheiði yfir í Dýrafjörðinn og til Þingeyrar. Mjög fallegt í Dýrafirðinum og talsvert undirlendi. Á þingeyri var stoppað og strandblakvöllur myndaður í bak og fyrir. Notað til heimildaöflunar vegna uppbyggingar slíkra mannvirkja á Egilsstöðum. Kristbjörg var mjög hrifinn af þessari aðstöðu. Nú tók við mikil keyrsla frá Þingeyri yfir Hrafnseyrarheiði. Ekki laust við að brugðið hafi fyrir lofthræðslunni, en þetta eru smámunir miðað við flestar heiðarnar hér fyrir austan.  Í Arnarfirðirðinum blasti Dynjandi  innst í firðinum. Einstaklega glæsilegur foss. Við stoppuðum og löbbuðum upp að honum í frábæru veðri.  Ekki spurning að þetta er einn fallegasti foss landsins, ef ekki sá flottasti. Enginn honum líkur.  Eftir labbið við Dynjanda, var farið upp á Dynjandisheiði og hún keyrð um Trölladal og horft niður í Geirþjófsfjörð á leiðinni. Við beygðum svo inn Norðdalinn og stefnan tekinn á Tálknafjörð. Þar vorum við stoppuð af ungum Patreksfirðing, því það var verið að taka upp kvikmynd á veginum. Við biðum þarna í 15 mínútur með útsýni yfir Trostantsfjörð. Loks var hleypt á umferð aftur og við keyrðum Trostantsfjörð, Reykjarfjörð og Fossfjörð á leiðinlegum vegi. Komum á malbik aftur við flugvöllin á Bíldudal. Keyrðum hinsvegar framhjá Bíldudal og héldum yfir Hálfdán á leið okkar til Tálknafjarðar. Við vorum orðinn bísna þreytt eftir keyrsluna og áttum ekki von á miklu á Tálknafirði. En þvílíkur staður! Þarna komum við á tjaldstæði, sem er án efa besta tjaldstæðið sem við komum á alla ferðina. Sundlaugin var frábær, það var gervigrasvöllur og strandblakvöllur við tjaldstæðið og mikill gróður. Við fórum svo og fengum okkur frábæra pizzu á veitingastað. Síðan var spilaður fótbolti og blak fram eftir og endað á Trival áður en við fórum að sofa. Tálknafjörður er algerlega frábær staður!

Í pottinum á Tálknafirði fréttum við af miklum vegaframkvæmdum á 20 km kafla á leiðinni áfram frá Brjánslæk. Fólk hafði verið að skemma bæði vagna og jafnvel bíla. Við ákváðum því að taka bara Baldur frá Brjánslæk klukkan 19:00 daginn eftir og bókaði ég það. Við tókum upp frá Tálknafirði og Kristbjörg krafðist þess að stefnan yrði tekin á Rauðasand. Ég var mjög skeptískur á það því að í pottinum hafði vegurinn þangað niðureftir borið á góma og hann ekki talinn fyrir lofthrædda.  En lofthræðsla er eitthvað sem ég á erfitt með að díla við.  Við allavega héldum af stað og fórum í gegnum Patreksfjörð, sem var mjög óspennandi í samanburði við Tálknafjörð. Stoppuðum ekkert þar, þó að sjóræningjasafn hafi vissulega hljómað spennandi. Við síðan beygjum inn að Látrabjargi sem er sama leið á Rauðasand. Við geymdum fellihýsið í ruslakrús við hliðina á gám merktum Kaupfélagi Héraðsbúa. Síðan var haldið yfir Stórhæð. Vegurinn niður hinumeginn var vissulega brattur til hliðanna, en það var ekkert þverhnípi og þetta miklu léttari vegur t.d. Hellisheiði eystri eða niður í Mjóafjörð.  Rauðisandur blasti svo við okkur í frábæru veðri ægifagur. Fjallasýnin að Látrabjörgum stórfengleg og þokkubakkar slúptu yfir fjallabrúnirnar eins og sæng. Algerlega ógleymanleg  sýn. Við löbbuðum síðan berfætt út á sandinn  og óðum þarna í sjónum.  Frábært ævintýri fyrir börnin og ekki síst fyrir Eskju. Rauðisandur er staður sem allir ættu að heimsækja þegar þeir fara vestur.  Frá Rauðasandi var haldið í Flókalund að fá sér að borða og í sund. Við tókum síðan Baldur á Brjánslæk og sigldum til Flateyjar, fórum reyndar ekki í land en sáum eyjuna vel. Einstaklega falleg byggð og sérstök, en mjög mikið rok. Síðan siglt til Stykkishólms. Við ákváðum að fara þaðan beint í Borgarnes og gistum þar um nóttina í roki.

Mjög óspennandi í Borgarnesi og við héldum þaðan beint til Reykjavíkur og settum fellihýsið upp í Laugardalnum. Hér er kominn laugardagur og við Hrafnkell ákváðum að skella okkur á Höttur-Afturelding í 2 deildinni upp í Mosfellsbæ. Á meðan fóru stelpurnar Laugaveginn í búðarráp. Leikurinn fór 1-1 og vorum við dulegir að hvetja Hattara. Hitti Fúsa Stefáns á vellinum.  Eftir leikinn og búðarrápið var farið í sund í Laugardalnum og svo Kentucky tekin með stæl og svo farið í bíó á skemmtilega mynd, sem ég man ekki hvað heitir.  Sváfum vel í Laugardalnum, tókum frjálsíþróttaæfingu á æfingasvæðinu við hliðina morgunin eftir. Hástökk, langstökk, grind og sprettur.  Við KJ hlupum í dalnum og svo var tekið sund aftur. Hittum þar Sigurjón Óla og var sett á heimsókn um kvöldið.  Fengum þar góðar móttökur eins og venjulega og var mikið etið og spjallað. Alltaf frábært að sækja þau hjón heim.  Sváfum svo í Laugardalnum aðra nótt.
Tókum upp og héldum af stað austur fyrir fjall. Komum við á Selfossi og litum á bílsöluna sem við keyptum Krúsa fyrir 6 árum. Erum að huga að bílaskiptum, þar sem við þurfum að selja Freelanderinn og því spurning að selja báða og fara á nýrri bíl. En þetta er hrikalega dýrt dót. Allavega það sem mig langar í. Enduðum svo á Kentucky aftur, hann klikkar ekki.  Keyrðum nú sem leið lá að Flúðum, þar var ennþá krökkt af fólki og talsvert rok. Langaði ekki vera þar og ákváðum að halda að Úhlíð og athuga með að komast í golf. Þegar þangað var komið var mikið rok þar og við enduðum á að tjalda í við Geysi eins og í fyrra. Við athugðum svo golfvöllin, en hann var umsetinn og ekki vel séð að vera með eitt sett á fjóra. Greinilega orðinn meiri alvöruvöllur en í fyrra, þar sem við fengum að spila án vandræða. Við fórum því bara í fótbolta við tjaldstæðið og svo í sund í Geysilaug og löbbuðum að Strokk sem blés með reglulegu millibili. Þetta var bara ágætt, nema hvað salernin voru ekki þrifinn og það voru stórir haugar af rusli fyrir utan þau. Mjög sóðalegt og þetta tjaldstæði fær þann heiður að vera versta tjaldstæðið sem við komum í ferðinni.

Frá Geysi var ákveðið að fara á Hvolsvöll og finna aftur pizzastaðinn sem við fórum á í fyrra og sannreyna hvort að þeir væru virkilega með bestu pizzur á Íslandi eins í fyrra. Og viti menn það klikkaði ekki. Þetta er besti pizzustaður á Íslandi, það er bara þannig. Heitir Gallery Pizza og er á Hvolsvelli. Frá Hvolsvelli var haldið af stað austur á bóginn og í raun tekin ákvörðun þarna um að enda bara í Dalskógunum. Við vorum búin að gista 8 nætur í Fellihýsinu og langaði bara að komast aðeins heim.  Þannig var keyrt stanslaust til Hafnar í Hornafirði þar sem við fórum í sund og átum Hamborgara á N1. Síðan Öxi tekin heim í Hérað. Ljúft að koma heim.
Þegar heim var komið á miðvikudegi, tókum við tvo vinnudaga og svo var stefnan tekin á Bræðsluna á Borgarfirði Eystri. Ákváðum að tjalda fellihýsinu þar á fjölskyldusvæði og vera frá föstudegi fram á sunnudag. Komum á hádegi á föstudegi og var þá farið beint í að veiða við Höfnina. Þar veiddi Daníel Freyr tvo Maradonna, ég fékk einn Maradonna og einn Máf. Snilld! Við Kristbjörg ákváðum að fara svo á tónleika með Jónasi Sig fyrrum sólstrandagæja. Það spilaði fyrst einhver unglingasveit sem ég man ekki nafnið á og eitthvað í land með að verða áhugaverð. En svo kom Jónas kallinn og þvílíkir tónleikar!!  Þetta hlýtur að vera eitt magnaðasta tónleikaband á landinu. Þéttleikin var þvílíkur. Ég var kominn með hrukkur af gæsahúðinni eftir þessa upplifun. Mig langaði ekki einu sinni á Bræðsluna sjálfa eftir þetta, hef reyndar engan sérstakan Dikta áhuga sem flestir voru með.  Meðan við KJ vorum á tónleikum var Adda Birna með Emblu og Hrafnkel, Tara sá um sig sjálf. Góður dagur.

Á Laugardeginum var prógrammið að labba eitthvað í Borgarfiðrinum. Við ákváðum að reyna við Brúnavíkurskarð. Lögðum af stað frá Höfn og röltum þangað til við sáum Brúnavíkina, en fórum ekki allaleið niður. Það var ekki meirihluti í hópnum fyrir því. En þetta var þó tveggja og hálfstíma labbitúr í frábæru veðri. Því næst fóru Hrafnkell og Embla í sjóbað. Hrafnkell stökk í sjóinn af bryggjunni og Embla Ósk óð út í og synti í sjónum. Þvílík stemming í gangi. Áður hafði Embla sýnt á tískusýningu. Um kvöldið var komið að okkur að sjá um Daníel og Emilíu meðan Guðgeir og Adda fóru á Bræðsluna. Við heyrðum ágætlega í tónleikunum frá tjaldstæðinu, en mig langaði ekkert að fara. Merkilegt nokk. Átum sveitta borgara hjá Helga Hlyn. Fór í fótbolta með krökkum sem voru þarna í kringum okkur á tjaldstæðinu. Ég og Einar Jóns vorum í marki, meðan strákarnir spiluðu og var mikill hiti í leiknum. Önnur markstöngin réðist á mig og stór sér á henni ennþá. Bara gaman. Á sama tíma tíndust Emblurnar og Emilía, en fundust í fjörunni og hurfu þaðan upp á Álfaborgina.  Spjölluðum við Gunnu Völu og Baldur frameftir, átum hákarl og harðfisk frá Kalla og supluðum bjór. Bara næs. Frábær dagur á Borgarfirði.

Á sunnudeginu haldið heim aftur og ákveðið að Stór-Urð biði betri tíma.