Annar bæjarstjórnarfundur
Annar bæjarstjórnarfundur nýrrar bæjarstjórnar var haldinn 7 júlí. Fundargerð fundarins má finna hér og upptaka af fundinum hér. Þetta var í raun fyrsti fundurinn sem lá fyrir einhver alvöru dagskrá og þegar ég sá hana gerði ég mér grein fyrir vinnunni við að fara í gegnum og setja sig inn í öll þessi mál fyrir einn fund. Sum eru þess eðlis, að einfaldur yfirlestur fundargerða gerir mig ekki færan til að meta eða gagnrýna ákvarðanatökur. Enda fór það svo að eftir að hafa lesið yfir fundargerðir og kynnt mér það sem ég taldi mig geta, þá ákvað ég að treysta afgreiðslu nefnda og bæjarráðs og greiddi atkvæði með þeim tillögum sem voru bornar upp.
Fyrir fundinn hafði ég einsett mér að ræða tvö málefni sem voru á dagskrá fundarins, annarsvegar málefni bæjarstjóra og svo málefnasamning meirihlutans. Það fór reyndar svo að ég blandaði því saman undir umræðum um málefnasamning. Ég hef rýnt í þennann samning og hann er á engan hátt alvondur. Það eru vissulega atriði sem við hefðum áhuga á að fá til viðbótar og hefðum kosið annað orðalag á annað, en heilt yfir væri hægt að skrifa upp á þetta plagg. Því þetta er almennt orðað og engar útfærslur á þessum málefnum til að rökræða.
Ég velti því því fyrir mér hvernig ég ætti að fara inn í umræður um þetta plagg, því það er vissulega hægt að taka þarna fjölmörg atriði og snúa út úr orðalagi og kalla eftir útfærslum og útskýringum og örugglega hefði verið hægt að slá um sig með einhverjum frösum. Ég ákvað að fara millileiðinni í þessu og taka fyrir tvö atriði sem ég gagngrýndi og spurði út úr. Annarsvegar varð það varðandi samvinnu og samstarf við alla flokka sem er í fyrstu málsgreinum samningsins. Þar fór ég í gegnum ferilinn við auglýsingaferli við ráðningu bæjarstjóra sem var engan veginn á þeim nótum að áhugi væri á samvinnu og samstarfi. Enda báðu Gunnar Jónsson og Stefán Bogi minnihlutann afsökunar á þeirri framvindu og hafa í framhaldinu kallaði eftir samstarfi minnihlutans við ráðningarferlið. Hitt atriðið var fyrirspurn út frá klausunni um sjálfstæði skóla, en ég kallaði eftir því hvernig meirihlutinn skilgreindi sjálfstæði skóla, þ.e. hvort hún fæli í sér, fjárhagslegt, stjórnunarlegt eða faglegt sjálfstæði eða jafnvel blöndu af þessu. Eyrún svaraði því til að áherslan væri á faglegt sjálfstæði og þau telja að samruni skóla muni storka því. Útfærsla á hagræðingu í fræðslu og skólamálum á svo eftir að eiga sér stað inn í fræðslunefnd og þar munu væntanlega verða settir fram valkostir að vinna með og þar mun fara fram dýpri umræða um nálganir. Þar gætu menn átt eftir að takast um leiðir.
Ég lokaði svo þessari málefnasamningsumræðu með því að leggja áherslu á þau gildi sem Héraðslistinn vann eftir og mun vinna áfram eftir. Eins ítrekaði ég að við hefðum bæði í ræðu, riti og raun, sett fram þá hugmynd að gerður yrði einn málefnasamningur allra framboða. Gunnar svaraði því með sú staða gæti komið upp að meirihluta þyrfti til að klára mál og vísaði jafnframt í hefðir hvað þetta varðar, ég er þar ósammála og tel að hvert málefni sé verkefni þar sem verði til meirihluti fyrir afgreiðslum. En ég lagði líka áherslu á að fólk hugsaði út fyrir kassann og þyrði að ögra hefðunum. Notaði þarna nýyrði sem ég kallaði víst Gnarr-ísku, veit ekki hvort það hefur verið notað áður.
Kollegar mínir í Héraðslistanum tóku líka til máls. Ítrekaði Sigrún Blöndal bókun varðandi starfsmannamál sem gerð var á bæjarráðsfundi og má sjá hér. Ræddi um stöðu Héraðsskjalasafnsins og lagði áherslu á að þar næðist sátt um ýmis mál sem er verið að glíma við í fulltrúaráðinu. Lagði áherlsu á að borinn væri virðing fyrir mannauðnum sem vinnur í stjórnsýslunni, eins ræddi hún að muna eftir menningarsamningunum. Talaði líka um íbúalýðræði og njóla.
Árni Kristins tók svo til máls undir málefnum skipulagsnefndar og kom á framfæri að þyrfti regluverk um land sem menn taki í fóstur, sér í lagi ef til þess kæmi innan þéttbýlis. Eins ræddi hann skipulag á mótorkross svæði sem þarf að vera klárt fyrir landsmót á næsta ári.
Ræðustubbarnir mínir voru þeir fyrstu á þessu vettvangi og ekki laust við að maður væri talsvert nervus. Ég leyfði mér nú að kíkja á upptökuna og sé að ég þarf að bæta ýmislegt, sem vonandi kemur með reynslunni. Nota t.d. orðið ‚hérna‘ óheppilega oft í stað þagnar. Ágætt að geta gagngrýnt sig svona eftir á.
Eflaust kann einhverjum að þykja að við í minnihlutanum ekki hafa verið nægilega aggressíf í gagnrýninni. Mín skoðun er sú að við eigum að fara af stað í þetta með það markmið að vinna af heilindum fyrir bæjarbúa og það gerum við best með því að reyna að skapa vinnufrið sem fyrst, því næg er upplausnin orðinn nú þegar með sviptingum í starfsmannamálum. Það verður af nægum ágreiningsefnum að taka þegar unnin verður fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og þá eru það mál sem skipta raunverulegu máli.
En í ljósi þessa fundar og upplifunar þá tel ég mikilvægt að kalla eftir innleggi frá íbúum um þau mál sem þeir telja að þurfi að ræða sérstaklega. Dagskrá fundar er venjulega tilbúin nokkrum dögum fyrir bæjarstjórnarfund og þar geta allir séð hvaða mál verða þá á dagskrá. Eins getur bæjarfulltrúi, samkvæmt 10 grein í samþykkt um stjórn Fljótsdalshéraðs og fundarsköp bæjarstjórnar, fengið mál á dagskrá. Það þarf reyndar að vera klárt viku fyrir bæjarstjórnarfund. Ef koma beiðnir um að skoða ákveðinn mál, þá er hægt að setja sig inn í því og skoða með starfsmönnum og meta þá hvort og þá hvernig skuli nálgast slík mál inn í bæjarstjórn.
Ég vil því ítreka að ég sem kjörinn fulltrúi er í forsvari fyrir íbúa og vil því hvetja ykkur til að senda fyrirspurnir á mig. Það má senda á netfangið tjorvi@egilsstadir.is, eins er hægt að fara inn á vef Héraðslistans í ‚Hafa samband‘ og senda inn erindi sem er áframsent á kjörna fulltrúa Héraðslistans, eins hægt að senda heradslistinn@heradslistinn.is sem fer sömu boðleið.