Fljótsdalshérað til framtíðar
Stefnuskrá Héraðslistans er unnin undir fjórum stoðum; velferð, þekking, þjónusta og umhverfi. Hugmyndin byggir á vinnu sem var unnin um framtíðarsýn og stefnu Fljótsdalshéraðs 2007-2027 og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum bæjarstjórnar 7.nóvember 2007. Þó að ýmislegt hafi gerst í samfélaginu frá 2007 þá stendur sú framtíðarsýn sem þarna var mótuð fyllalega og því nærtækt að byggja á umræddum stoðum og horfa á Fljótsdalshérað til framtíðar.
Til að takast á við verkefnin framundan þá telur Héraðslistinn mikilvægt að byggja upp traust gagnvart kjósendum. Liður í því er að leggja til að kjörnir fulltrúar og starfsmenn starfi eftir skilgreindum siðareglum og til að vera heiðarleg í þeirri viðleitni þá birta frambjóðendur upplýsingar um hagsmunatengsl og kjör á vefnum.
Héraðslistinn telur mikilvægt að sýna ábyrgð í verki með því að takast á við innviði sveitarfélagsins. Þar köllum við eftir samvinnu við starfsfólk við að samþætta starfssemi til að ná fram sveigjanleika og jafnræði . Lykilatriði í allri slíkri vinnu er að hafa hagsmuni íbúa í fyrirrúmi. Þegar kemur að stórum ákvörðunum þá vill Héraðslistinn virkt íbúalýðræði við að kynna hugmyndir og kalla jafnframt eftir hugmyndum frá íbúum.
Héraðslistinn vill koma upp föstum viðtalstímum bæjarfulltrúa og útvíka möguleika á gagnvirkum samskiptum í gegnum íbúagátt. Jafnframt að nefndir kynni reglulega á opnum fundi þá vinnu sem þær eru að vinna og þær ákvarðanir sem hafa verið teknar. Þannig leggur Héraðslistinn áherslu á að íbúum verði haldið eins upplýstum og kostur er.
Héraðslistinn hefur í sinni vinnu velt fyrir sér hugmyndinni um að öll framboð sem fái kjörna fulltrúa myndi með sér einn málefnasamning. Kjörnir fulltrúar eru oftast sammála um afgreiðslu mála sem varða hag sveitarfélagsins og oft nefnt að 90% mála séu án ágreinings. Ef svo er, af hverju er þá til eitthvað sem heitir meirihluti og minnihluti? Ef yrði gerður einn málefnasamningur allra framboða, þá fá öll framboð formenn í nefndum og hafa þar með öll sýnileg áhrif. Það má vera að þetta sé ógerlegt, en ég skora á önnur framboð að hugsa þennan möguleika.
Héraðslistinn mun sýna hugrekki og þolinmæði í þeim verkefnum sem þarf að takast á við og hópurinn er fullur bjartsýni fyrir hönd Fljótsdalshéraðs.