Framboðsfundur á Fljótsdalshéraði

Ég mætti á framboðsfund í kvöld, kom nú aðeins of seint á fundinn og náði ekki þremur fyrstu ræðunum. Missti því af ræðu Ingunnar Bylgju frænku minnar, sem átti við víst góða innkomu.

Hér er mín upplifun af frammistöðu framboða á fundinum.

Af því sem ég sá, þá fannst mér heildaryfirbragð Héraðslistans best. Kannski hlutdrægur af því ég hef unnið með þeim og þekki ágætlega til þriggja efstu, t.d. er Árni Kristinsson í mínum huga hinn fullkomni bæjarfulltrúi og Sigrún Blöndal stóð upp úr í kvöld án þess að hafa mikið fyrir því. Hún er bara einhvern veginn með’etta.

Stefán Bogi var að svara ágætlega og stóð upp úr hjá meirihlutanum og átti bestu lokaræðuna fannst mér, þó orðið framsóknarflokkur hafi verið soldið ofnotað þar, svona fyrir minn smekk. Hann er svolítið með’etta líka.

Flott hjá E-listanum að hafa kjark til að stíga fram með framboð, þó deila megi um ýmsilegt þar og framboðið beri þess merki að vera illa skipulagt. Veit reyndar að þeir náðu einu atkvæði í kvöld út á hugmynd um sólarorku framleiðslu á húsþökum á Egilsstöðum.

Sjálfstæðisflokkurinnn skipti um forrystusveit, sem getur verið erfitt þegar hinn framboðin sem eiga bæjarfulltrúa eru með nær óbreyttan hóp. Veit að Anna er hörkudugleg og það reynir á hjá henni að keyra baráttuanda í sinn hóp. Hún stóð sig vel fannst mér.

Á-listinn virðist vera með ýmsar áhugaverðar hugmyndir sem skera sig úr. Ég hef talsvert álit á Gunnari Jónssyni sem leiðtoga, en það var samt eitthvað við yfirbragð Á listans í kvöld sem var ekki að gera sig. Kannski gerði maður meiri kröfur á að framboð sem er búin að vera í meirihluta í fjögur ár væri meira afgerandi.

Aðrir voru líka bara að standa sig ágætlega. veit sjálfur að þetta er stressandi að vera þarna í fyrsta skipti og ég tek bara ofan fyrir því fólki sem er að fara ‘gefa’ tíma sinn í þessa vanþakklátu vinnu.

Annars minnti þetta mig á sama fund fyrir fjórum árum. Sennilega helmingur spurninga þær sömu og voru þá. Atvinnumálafulltrúi, Sláturhúsið, sameining skóla, skuldastaðan og 150 prósentinn osfrv. Það er erfitt að ætla fólki að svara mjög djúpt á svona framboðsfundi hvernig sýn það hefur og hvernig það ætli að útfæra og framkvæma hlutina. Mikið af slíkum spurningum býr til froðusvör, sem hafa ekkert innihald því þarna er ekki staður eða stund til að úttala sig um útfærslur. Hvað ætli hafi verið oft sagt ‘Það þarf bara að skoða það’, típskt pólitískt svar, sem svarar engu en hafnar engu heldur.

Fyrir mér ætti stóra málið í sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs vera að bæta vinnu umhverfi kjörinna fulltrúa, á það sennilega við fleiri sveitarfélög. Fólk getur gert endalausar kröfur á kjörna fulltrúa um að það þurfi að gera þetta og hitt, setja fram stefnur, útfæra lausnir, koma með hugmyndir, eiga samtal við kjósendur, íbúalýðræði og svona má lengi telja. Öllu þarf þessu svo að sinna þegar venjulegum vinnudegi lýkur hjá fólki, sem er fáránlegt í raun þegar öll vinnuorka er nánast búin. Mjög oft koma menn bæði þreyttir og illa undirbúnir þó að séu flókin erindi til umræðu því teygjast þessir fundir og mál jafnvel ekki afgreidd og frestað til næsta fundar eða fært á milli nefnda. Ef vinnuumhverfi kjörinna fulltrúa og nefndarfólks er lagað þá er fyrst hægt að fara gera alvöru kröfur á bæjarfulltrúa og nefndarfólk. Þetta kann að vera sjálfhverft mál fyrir verðandi bæjarfulltrúa að tala fyrir, en þetta verður bara að gerast!

Heilt yfir var fundurinn hinsvegar ágætur og örugglega einhverjir fundið farveg fyrir atkvæðið sitt á laugardaginn. Ég er allavega nokkurn vegin búin að hólfa mitt niður.
Held ég !